fimmtudagur, 15. apríl 2010

Verum þakklát!

10.apríl fyrir ári síðan var ég þakklát - þá voru breyttar aðstæður hjá mér og lífið aðeins í öðrum skrið en í dag - þó er ég enn jafn þakklát vegna þess að ég er svo rosalega heppin! Ég á yndislega að, frábæra fjölskyldu sem ég nýt hvers augnabliks með og góða vini.

Lífið mitt blómstrar á meðan annarra fölnar og með þeim lifir bænin mín og von um að þeirra líf geti líka blómstrað og að öllum líði vel. Við eigum að vera þakklát fyrir tilveruna okkar og líf - og þó að margir eigi erfitt nú á krepputímum þá breytir það ekki því að það er margt sem hægt er að þakka fyrir og vera ánægður með.

En bloggið síðan í fyrra var svo ansi gott að ég ætla bara að leyfa sjálfri mér að copy/pastea það hér og hvet ykkur til að hugsa ykkur um næst þegar "lífið er glatað" - því ég held að það sé ekki jafn glatað og maður leyfir sér oft að halda.
--------------------------------------------------------------------------------

Á meðan sumt fólk missir vinnuna og peninga er annað fólk sem missir ástvini. Í Ítalíu er þjóðarsorg vegna jarðskjálfta, þar sem mörg hundruð manns hafa dáið og yfir 1000 manns slasast. Í Írak deyr fólk á hverjum degi og lifir í endalausum ótta við sprengjur og skotárásir. Í Afríku og öðrum þróunarlöndum lifir fólk varla daginn af vegna sjúkdóma eða/og matar- og drykkjaleysis.

Á Íslandi er meðallífsaldur fólks með því alhæsta sem þekkist í heiminum og um daginn sá ég frétt þar sem meðallífsaldur karlmanna væri sá hæsti á Íslandi. Mikið getum við verið þakklát fyrir það. Við getum verið þakklát fyrir hreina loftið, tæra og góða vatnið, friðinn og lífið hér á Íslandi.

Þó deyr fólk líka á Íslandi og á hverjum degi les maður yfir sorglegar minningargreinar, sér lítil börn eða ungt fólk í blóma lífsins. Alltaf er fólk að missa ástvini; foreldra, börn, afa og ömmur. Á hverjum degi ríkir sorg í einhverju hjarta sem er langtum verri en atvinnuleysi eða peningavandamál.

Ég fór að hugsa um lífið í öðru ljósi eftir að ég komst að því að kona á besta aldri deyr úr krabbameini, kona sem var full af lífi og gleði, naut þess að vera með börnum sínum og barnabörnum, var góður vinnuveitandi og yndisleg að öllu leyti. Þessi kona kemst að því að hún sé með krabbamein og að hún muni deyja eftir nokkra mánuði. Sú tilfinning hlýtur að vera skelfileg og að þurfa að segja sínum nánustu fréttirnar er eitthvað sem enginn getur ímyndað sér.

Maður verður að hugsa til þess jákvæða í lífinu og þakka fyrir allt það góða sem maður á. Lífið getur verið ósanngjarnt og erfitt. Núna eiga margir mjög erfitt og skelfilegt að svona sé komið fyrir okkar góða landi og að fólk eigi ekki mat handa sér og börnum sínum. En til að þrauka svona tíma af og horfa fram á við, verður maður að vera bjartsýnn og jákvæður. Maður verður að vakna á morgnanna, áorka einhverju og líta til framtíðar. Nota tímann sem maður hefur á þessari jörðu, með því fólki sem maður elskar.

Farið vel með ykkur og reynið að njóta lífsins til fulls.. þó það sé oft erfitt.

- hér er upphaflega bloggið með indælum commentum - http://hallaoh.blogspot.com/2009/04/vera-akklatur.html - getiði toppað þessi comment??? ;)

sunnudagur, 11. apríl 2010

Einn góður :)

Hrólfur og Erla voru vistmenn á geðsjúkrahúsi. Dag einn, er þau voru á gangi við sundlaugina kastaði Hrólfur sér útí og sökk til botns. Erla stakk sér útí laugina og bjargaði Hrólfi frá drukknun.
Þegar yfirlæknirinn frétti af björgunarafreki Erlu ákvað hann að útskrifa hana af sjúkrahúsinu, þar sem hún væri greinilega búin að ná snerpu og andlegu jafnvægi á ný.

Daginn eftir fór hann til fundar við Erlu til að boða henni
fréttirnar og sagði þá: Erla mín, ég hef bæði góðar og slæmar fréttir að færa þér! Góða fréttin er að ég ætla að útskrifa þig af spítalanum þar sem þú hefur sýnt merki um bata, sem sýnir sig í því að þú bjargaðir honum Hrólfi frá drukknun. Slæma fréttin er hins vegar sú að hann Hrólfur er dáinn. Karlgreyið hengdi sig í beltinu sínu í gærkvöldi eftir að þú hafðir bjargað honum.

Þá sagði Erla: Hrólfur hengdi sig ekki. Ég festi hann upp til
þerris í gærkvöldi. En hvenær má ég fara heim sagðirðu ??

-------
Fariði vel með ykkur :)