Um daginn tók ég ansi merkilega bók af bókasafninu sem nefnist Öldin sem leið og er um árin 1800-1860. Þar eru margar ansi áhugaverðar fréttir og ætla ég að dreypa á þeim bestu hér.
- Íslendingar voru þekktir fyrir að bjarga sér á árum áður og í apríl 1801 fannst maður sem hafði týnst í óveðri með kindur sínar kalinn og vart hugað líf – drep hljóp í sár hans og því þurfti að taka af honum bæði hendur og fætur en það gerði ólærður læknir og þótti það hafa tekist svo vel að lærðir læknar gætu ekki gert betur!
- Reykjavík var ansi lítið bæjarfélag á þessum tíma en 1801 var íbúafjöldi 307 manns og þótti það mikil fjölgun frá árinu 1786 þegar bæjarbúar voru einungi 167.
Á Íslandi bjuggu 47 þúsund manns árið 1801.
- En þessi tími var oft mjög grimmilegur og voru dómar mjög harðir t.d. var stúlka dæmd til lífláts fyrir að bera út barn sitt sem að varð undir með kvæntum manni, en hann hafði ógnað henni svo hún myndi ekki lýsa hann föður barnsins. Þessi maður hafði barnað 4 konur utan hjónabands og tvívegis reynt að láta barnsmæður sínar rangfeðra börnin. Þegar kom að fæðingu stúlkunnar sem fyrst var nefnd hafi hún eignast barnið í rúmi sínu sem var við hlið foreldra henna en þau vissu ekki af óléttunni og náði hún að kæfa niður öll hljóð svo enginn myndi verða fæðingarinnar var. Fór hún svo með barnið að tjörninni þar sem því var drekkt. Ekki stendur hvort maðurinn hlaut refsingu en hann var a.m.k. ákærður. Stúlkan var líflátin.
- Að Sjöundá í Barðastrandasýslu gerðust skrýtnir hlutir. Bærinn er tvíbýli þar sem tvenn hjón bjuggu, annars vegar Bjarni og Guðrún og hins vegar Jón og Steinunn. En svo deyja Jón og Guðrún og þegar málið er rannsakað kemur í ljós að Bjarni og Steinunn hafi verið í ástarsambandi og að þau hafi myrt maka sína til þess að vera saman. Þau voru dæmd til pyntinga og lífláts.
- Um miðjan júní 1802 var enn vetur á Íslandi – enda mjög langur og harður vetur að líða. Lítið um fisk til að veiða og bú að flosna upp þannig að fólk bjó við mikla vosbúð og jafnvel dauða.
- 16 ára gamall strákur stal eldivið úr kofa á Litla-Hrauni og fiski á Stokkseyri sem var metið á samtals 36 skildinga. Hérað var ansi harkalegt í dómi sínum þar sem það dæmdi strákinn til að „kagstrýkjast og erfiða í járnum í Kaupmannahafnar þrælavarðhaldi ævilangt“ en landsyfirréttur ógilti þann dóm og dæmdi strákinn til að erfiða í 2 ár í íslensku tugthúsi.
- 12.júlí 1809 var íslenskur fáni fyrst dreginn upp að húni „blár feldur með þrem hvítum þorskum“.
Jæja – nú getiði beðið spennt eftir næsta bloggi þar sem ég mun halda áfram að fræða ykkur um aðalfréttirnar á árunum 1811 og uppúr! T.d. er mjög spaugileg lýsing sem enskur blaðamaður hefur á Íslendingum og mun ég segja frá því í næsta bloggi... kv.H
Frá svipuðum tíma var ævi og kjör SG frá Illugastöðum, sú er stóð að morði Natans en slapp með að vera flutt á Tugt-, Rasp- og Forbedringshuset í Kaupmannahöfn 1830, d. þar 5. apríl 1839. Uppskrifaðar eigur hennar notar Þorsteinn frá Hamri í ljóð um konuna. Hún var fædd á Vatnsenda í Vesturhópshólasókn 1811:
SvaraEyðaSigríður Guðmundsdóttir frá Illugastöðum
Borin til þrár og vonar
en vönust að hlýða:
óframfærin, góðlát
hrekklaus og hrædd.
Upp var skrifuð
aleigan: götótt sjal
pils af vaðmáli, rifið,
annað, nær ónýtt,
svuntugarmur,
gömul kvenhúfa blá
með silkiskúf, skemmdum.
Og líkt og tákn
fyrir eitthvað heilt, jafnvel athvarf:
lítill stokkur
þar sem þú geymdir grænan
silkitvinna ...
Þorsteinn frá Hamri
Með kv. IHJ