föstudagur, 27. nóvember 2009

Hví er kynjamunur?

Ég er búin að vera svo dugleg að læra í dag að ég ætla bara að verðlauna mig með bloggi milli lota :) Ég var nefnilega að lesa kafla um kynhlutverk og kynjamun og þar voru ýmislegt sem fékk mig til að hugsa...

En til að byrja með þá myndi ég ekki flokka sjálfa mig sem feminista - mér finnst það aðeins of ýkt hugmyndafræði fyrir mig - a.m.k kemur hún manni þannig fyrir sjónir. Ég trúi á jafnræði og þá meina ég í allar áttir - mér finnst ekki jafnræði vera ef að fólk neyðist til að finna konu í starf bara vegna þess að það þarf að vera 50% konur í stjórninni (eða e-ð þess háttar) - konur verða að sjálfsögðu að sækja í stöðurnar sjálfar og vera hæfar í þær - því með svona leiðum er bara gert lítið úr konum og þeirra verðleikum ef þær eru ekki ráðnar á réttum forsendum - því það er alveg jafn slæmt að vera ráðin bara af því að maður sé kona eins og að vera ekki ráðin af því að maður sé kona.

En pælingin er bara sú - af hverju er þessi mikli munur á kynjunum - auðvitað er líffræðilegi munurinn mikill - körlum vex skegg - konur geta eignast börn o.fl. En kynjamunurinn byrjar strax við fæðingu auk þess sem áhrif foreldra eru að sjálfsögu mjög mikil - ef móðirin sér alltaf um að elda þá er líklegt að stelpunni finnist sjálfsagt að gera það á sínu eigin heimili.

Í könnun frá reyndar 1998 kom í ljós að konan vann almennt 5 klst meira en karlmaður á viku en karlar unnu 15 klst meira utan heimilis en konan - þar kom líka í ljós að konan sá meira um börnin (9klst meira) en karlmaðurinn. Vonandi hefur þetta e-ð breyst og að sjálfsögðu mjög líklegt að hafi breyst - en þetta er samt svolítið umhugsunarvert.

Mér finnst fólk aðallega bara vera einstaklingar en ekki bara eitthvað kyn og að það þurfi ekki að ráða fólk í vinnur vegna kyns - ef að kona hefur áhuga á "karladjobbi" og hefur það sem þarf þá sé ég ekkert í vegi fyrir því að hún fái starfið (ef hún er hæfust) og eins öfugt.
Ég held að áhugasvið hvers og eins sé mjög misjafnt og það þarf alls ekki að hafa neitt með kyn að gera - Það eru t.d. mun fleiri í mínu fagi kvenkyns en það er ekki víst að það sé út af því að stelpur hafi meiri áhuga á því starfi né séu hæfari í það - heldur sé það að mestu leyti venjan og þ.a.l. detti strákum ekki í hug að fara í það starf (þó alls ekki allir - því það eru nú nokkrir (7 af 240) flottir með okkur í hjúkkunni). Einnig eru hæfileikar ekki kynbundnir að mínu mati þó þeir komi oft þannig út - en það getur líka tengst þessum venjum og siðum sem að samfélagið hefur mótað í okkur og við teljum "venjulega".

Ég sem dæmi byrjaði ekki að þvo þvottinn minn þegar ég fermdist af því að ég var kona - heldur vegna þess að ég varð sjálfstæðari, vildi fullorðnast og hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun síðan - því hver er betri í að þvo þvottinn manns en maður sjálfur! Auk þess tel ég þetta vera stóran part í sjálfstæði hvers og eins að geta þvegið fötin af sjálfum sér! Þannig að af hverju ættu þvottar að tengjast sjálfkrafa við konur? Kannski gerir það það ekki lengur.. vonandi ekki..

En hvað er þetta þá.. hvernig festast þessi kynhlutverk svona rosalega í sessi hjá okkur og mikið væri nú gott ef hægt væri að fleygja öllum þessum gildum, viðhorfum, venjum og siðum í ruslið og byrja á hvítum, hreinum grunni þar sem allir væru jafnir; hvernig sem þeir líta út eða hvaða kyni þeir tilheyra því að þá held ég að heimurinn myndi fúnkera mun betur og mér þætti aðallega mjöög spennandi að sjá hvort að konur færu í "kvennastörfin" og karlar í "karlastörfin"

En til að enda þetta á uppáhaldi allra - heimilsstörfunum - þá tel ég konur ekkert vera hæfari í þeim störfum en karlar - þetta er allt bara venjur, siðir og að sjálfsögðu uppeldi - og smá punktur til ykkar strákar - að þvo þvotta og þrífa gólf (ásamt öðrum heimilisverkum) er enganvegin hluti af áhugamálum og sviðum stelpna.. þannig að þið eruð alls ekki að fara inn á þeirra svæði þó þið takið aðeins í þvottavélina (ef þær hleypa ykkur í það tryllitæki) ;)

En þá hef ég komið þessu frá mér og get aftur farið að einbeita mér að félagfræðinni! Veltið þessu fyrir ykkur og endilega commentið :)

Njótið lífsins og lifið heil - alveg sama hvernig þið lítið út eða eruð ;) KNÚS!

þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Vinaminni

Fyrir tæpu ári (í jan '09) samdi Steindór Dan ljóð fyrir ömmu sína og afa, skrifaði það á fremstu síðu fínnar gestabókar sem hann afhenti þeim í notalega bústaðnum þeirra í Kjósinni :) Þegar hann las ljóðið upphátt fyrir fjölskylduna þá var varla þurr hvarmur á svæðinu - þau áhrif hafði ljóðið á hlustendurna sem vita allir hve yndislegt það er í Vinaminni (bústaðnum) en fannst ótrúlegt hvernig Steindór náði að setja þær miklu og góðu tilfinningar í ljóð með stuðlum og höfuðstöfum - það er ekki sjálfsagt verk! Hann hefur ótrúlega náðargáfu - þó ég telji mig sjálfa nú vera skáldagyðjuna hans - þá gerir hann nú meira í ljóðagerðinni en ég - ég þarf bara að vera til :) haha.. en án alls gríns þá ákvað ég að skella inn þessu fallega ljóði og hvetja ykkur öll til að skoða www.ljod.is/steindor og lesa öll fallegu ljóðin hans - fyndnu og skemmtilegu :)


Vinaminni

Inn á milli fagurra fjallatinda
og firninda, sem náttúruna mynda,
finna má í sælli veröld sinni
sumarhús, sem heitir Vinaminni.

Á botninum í djúpum, fögrum dalnum
dvelur það, í miðjum fjallasalnum.
Hvort sem er, að vori eða að vetri,
veður gerast hvergi á landi betri.

Hér logar ávallt lífsins besti eldur
og logi hans í öllum brjóstum veldur
hamingju og heimsins besta friði,
sem heyra má í tærum lækjarniði.

Hér er ávallt afar kátt á hjalla
og ómar stundum gleði um Kjósina alla.
Sumir kátir syngja um heima og geima
en sumir lúra vært í koju og dreyma.

Fátt er betra en hér í ró að hafa
hæga stund með ömmu sinni og afa.
Í sældarför á værðarinnar vegi
ég varið gæti hérna hverjum degi.

En öll við þurfum Kjósina að kveðja
og kann það eigi nokkurt hjarta að gleðja.
En hingað verkar frækinn feiknarkraftur,
svo fljótt við munum snúa hingað aftur.

Því hvergi er í veröld betra að vera
og víst mun ávallt ljúfa í brjósti bera
minningu um bústað sem í sinni
sælu veröld lifir - Vinaminni.
SDJ


Ég hrósa honum alls ekki nógu mikið fyrir öll fallegu ljóðin sem hann hefur ort fyrir og um mig - allar ferskeytlurnar sem hann hendir fram á örfáum mínútum í bílnum og skrifar inn í afmæliskort - á leiðinni í afmælið og hin fjölmörgu, fjölbreyttu og frábæru ljóð sem koma eins og ekkert séð! Hann er alveg magnaður og fær hrós dagsins og bara örugglega ársins fyrir þessi stórkostlegu ljóð hans :)

föstudagur, 6. nóvember 2009

Hjónaskilnaðir og hrós dagsins :)

Skólinn gengur sinn vanagang.. maður er aldrei nógu duglegur en nú er nóvember gengin í garð og þá duga engar afsakanir!! Nú er það bara hlaðan á hverjum degi og fram á kvöld! Ræktin kl. 6 á morgnanna og eintómur dugnaður! Inn á milli fær maður sér fljótandi járn-sjúss og orkudrykk – milli þess sem maður maular nestið (sem maður auðvitað smyr heima fyrir daginn í kreppunni) En það er margt áhugavert sem kemur í ljós í náminu.. ég er í ýmsum mismunandi fögum; siðfræði, sálfræði, félagsfræði, líffærafræði og lífefnafræði.. og ég vildi óska að ég gæti prentað allt inní höfðið á mér og að ég hefði betra sjónminni þar sem það er svo margt spennandi og fræðandi sem væri gaman að muna! Kannski ég fari bara að blogga um það mest spennandi og fræðandi úr náminu... svona til að fræða aðra og rifja sjálf upp ;)

Í félagsfræðinni var t.d. rætt í gær um hjónaskilnaði og ástæður þeirra, og þær geta komið manni mjög á óvart.. t.d. finnst manni rökrétt að þegar aðili hefur skilið einu sinni þá læri hann af því og lagi sitt samband og láti næsta samband virka og manni finnst oft óeðlilegt að sumir skilji aftur og aftur.. falli alltaf í sömu gryfjuna, en rannsóknir sýna að það eru meiri ástæður á hjónaskilnaði hafi fyrri skilnaður orðið – hjá annað hvort öðrum aðilanum eða báðum! Mér fannst líka merkilegt að ef fólk byrjar ekki á að trúlofa sig eða að vera trúlofaður í soldinn tíma áður en gifting á sér stað – þá eru meiri líkur á skilnaði! Maður heyrir oft talað um að þegar fólk sé ólíkt þá byggi það hvort annað upp og að það sé jákvætt að vera ólík – hjónaskilnaðir eru aftur á móti mun líklegri hjá fólki sem er með ólíkan bakgrunn. Einnig finnst mér alveg makalaust að það séu meiri líkur á að þegar aðilar séu báðir úr þéttbýli að þá séu meiri líkur á hjónaskilnaði... en jæja nóg um hjónaskilnað!
Bara smá fróðleikspunktar fyrir ykkur yndislega fólkið sem les bloggið mitt! :)

Svo ætla ég að innleiða nýjan „fítus“ á blogginu mínu – hróshornið! Og mun héðan í frá enda hvert blogg með að hrósa einhverjum sem á það skilið :)

Í dag ætla ég að hrósa Þórdísi frænku fyrir öll spjöllin, allar kózýstundirnar, að eiga jafn yndislega dóttur og öll skutlin og förin út um allar trissur :) Hún er algjörlega frábær :*

Knús á alla í tilefni þessa föstudags :) Vona að öllum líði vel, kv. Halla Ósk