Fyrir tæpu ári (í jan '09) samdi Steindór Dan ljóð fyrir ömmu sína og afa, skrifaði það á fremstu síðu fínnar gestabókar sem hann afhenti þeim í notalega bústaðnum þeirra í Kjósinni :) Þegar hann las ljóðið upphátt fyrir fjölskylduna þá var varla þurr hvarmur á svæðinu - þau áhrif hafði ljóðið á hlustendurna sem vita allir hve yndislegt það er í Vinaminni (bústaðnum) en fannst ótrúlegt hvernig Steindór náði að setja þær miklu og góðu tilfinningar í ljóð með stuðlum og höfuðstöfum - það er ekki sjálfsagt verk! Hann hefur ótrúlega náðargáfu - þó ég telji mig sjálfa nú vera skáldagyðjuna hans - þá gerir hann nú meira í ljóðagerðinni en ég - ég þarf bara að vera til :) haha.. en án alls gríns þá ákvað ég að skella inn þessu fallega ljóði og hvetja ykkur öll til að skoða www.ljod.is/steindor og lesa öll fallegu ljóðin hans - fyndnu og skemmtilegu :)
Vinaminni
Inn á milli fagurra fjallatinda
og firninda, sem náttúruna mynda,
finna má í sælli veröld sinni
sumarhús, sem heitir Vinaminni.
Á botninum í djúpum, fögrum dalnum
dvelur það, í miðjum fjallasalnum.
Hvort sem er, að vori eða að vetri,
veður gerast hvergi á landi betri.
Hér logar ávallt lífsins besti eldur
og logi hans í öllum brjóstum veldur
hamingju og heimsins besta friði,
sem heyra má í tærum lækjarniði.
Hér er ávallt afar kátt á hjalla
og ómar stundum gleði um Kjósina alla.
Sumir kátir syngja um heima og geima
en sumir lúra vært í koju og dreyma.
Fátt er betra en hér í ró að hafa
hæga stund með ömmu sinni og afa.
Í sældarför á værðarinnar vegi
ég varið gæti hérna hverjum degi.
En öll við þurfum Kjósina að kveðja
og kann það eigi nokkurt hjarta að gleðja.
En hingað verkar frækinn feiknarkraftur,
svo fljótt við munum snúa hingað aftur.
Því hvergi er í veröld betra að vera
og víst mun ávallt ljúfa í brjósti bera
minningu um bústað sem í sinni
sælu veröld lifir - Vinaminni.
SDJ
Ég hrósa honum alls ekki nógu mikið fyrir öll fallegu ljóðin sem hann hefur ort fyrir og um mig - allar ferskeytlurnar sem hann hendir fram á örfáum mínútum í bílnum og skrifar inn í afmæliskort - á leiðinni í afmælið og hin fjölmörgu, fjölbreyttu og frábæru ljóð sem koma eins og ekkert séð! Hann er alveg magnaður og fær hrós dagsins og bara örugglega ársins fyrir þessi stórkostlegu ljóð hans :)
Hressilegt og gott klapp fékk hann Steindór þinn á Bragaþinginu í haust í Efri-Vík, enda gott ljóðið sem hann flutti þar. Kannski fáum við að sjá það einhvern tíma á síðunni þinni Halla mín. Kveðjur úr Austurbænum og frá pabba þínum
SvaraEyðaJá, ekki má gleyma þeirri flottu smíð. Skelli því hérna með - þó það megi einnig sjá það ásamt fleiri nýlegum ljóðum á www.steindor.is og aðeins eldri en fleiri inn á ljóðasíðunni hans: ljod.is/steindor
SvaraEyða----
Hér er Bragaþing LJÓÐIÐ frá Efri-Vík:
Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir,
kveikjum vér ljóðanna eld
og vonum að pestir og vanheilsubrestir
verði oss fjarri í kveld.
Amann vér kyrjum er andann vér styrkjum -
á amstrinu vinnum vér bug.
Blýantinn virkjum - af alúð vér yrkjum
um allt, sem oss dettur í hug.
Um heima og geima lát stuðlana streyma
og um stórbrotna kvæðanna borg.
Vér látum oss dreyma - hér leyfist að gleyma
lífsins angist og sorg.
Sem tíðkaðist forðum, vér tendrum og skorðum
vort tungumál ennþá að vild.
Og sjá, hér að borðum fólk situr, sem orðum
kann saman að raða af snilld.
Í kvöld, kæru gestir, þér kvæðamenn mestir
sigla kvæðin hinn ljóðræna sjó.
Nú held ég að flestir, sem hér eru sestir,
hafi af mér fengið nóg. SDJ
----