mánudagur, 27. apríl 2009

Grín á kostnað annarra

Ég hef mikið velt fyrir mér þessu hugtaki að grínast með eitthvað.. fólk segir oft eitthvað sem á að vera grín en samt hefur maður það á tilfinningunni að manneskjan hafi meint það og verið að reyna að koma einhverju á framfæri með því að fara "skondnu leiðina".

Ég hef alltaf verið mjög á móti bröndurum sem eru á kostnað annara - sérstaklega þegar þeir eru særandi. Þegar ég fór einu sinni á Galtalæk um verslunarmannahelgi man ég eftir einu þess háttar uppistandi - þar var Jón Gnarr upp á sviði að taka einhvern vissan hóp fólks "í nefið" - man ekki hvaða hópur það var en hann var frekar lítill en þó heilmiklar líkur á því að einhver fyrir framan sviðið flokkaðist undir hann. Ég þoldi ekki að horfa í kringum mig og sjá hina hlæjandi að þessu.. að láta hann fá þá ánægju að fólk hlæji að honum þegar hann er að gera jafn ljótan brandara á kostnað annarra bara til að vera fyndinn. Það er léleg leið og ódýr! Síðan þá hefur mér ekki líkað við Jón Gnarr hehe...

Spaugstofan tekur marga fyrir í sínum vikulegu annálum og er margt mjög fyndið auk þess sem þeir sýna manni oft aðrar hliðar á málum líðandi stundar. En það sem ég hef verið að velta fyrir mér nýlega er hvernig grínið á kostnað t.d. forseta Íslands er háttað.. hvort það sé ekki orðið fullmikið á tímum. Ég skil vel að alþingismenn og aðrir sem eru í fréttum og þess háttar séu gagnrýndir fyrir sín orð og hætti en er ekki orðið svolítið slæmt þegar forsetinn fær svona yfir sig.. á maður ekki að bera meiri virðingu fyrir forseta lýðveldisins en svo? Ég man nú ekki eftir að Vigdís hafi t.d. nokkurn tíma fengið svona yfir sig.
Ýmsir eru á móti Ólafi Ragnari og hafa sínar ástæður sem ég skil en Ólafur Ragnar hefur að mínu mati ekkert gert sem ég persónulega get verið á móti.. hann var meðfylgjandi útrásinni eins og flestir Íslendingar og mjög margir voru á þessum tíma..ekki hægt að ráðast á hann einn út af því. Auk þess sem grínin á kostnað Ólafs Ragnars hafa oftast ekkert með hans ákvarðanir að gera heldur hvernig hann lítur út eða ber sig.. eða hvernig konan hans ber sig og þau sem hjón..

Æ, mér finnst leiðinlegt að horfa á svona og sjá sömu skopatriðin endurtekin um forsetann okkar. Hann á ekki skilið svona óvirðingu frá þjóðinni - við kjósum hann lýðræðislega og höfum gert það.. ef við höfum eitthvað á móti honum verðum við bara sjálf að gera eitthvað í því eða fara í forsetaframboð!

P.S. Ég skellti bílhurð mjög fast í andlitið á mér, er bólgin og bíð eftir marblett! Haha.. skooondið! ;) ...bara svona til að hressa aaaðeins upp á bloggið :)

fimmtudagur, 23. apríl 2009

Tilfinning dagsins er stolt

Í dag vaknaði ég glöð, enda sumardagurinn fyrsti sérstakur dagur, skellti mér í föt og fór út ásamt foreldrum mínum í skrúðgöngu. Sigríður Embla systir mín var þar fremsti skáti í göngunni, hélt á fána og stjórnaði ferðinni. Ég fylltist stolti þegar ég sá hana í þessu hlutverki og tilfinningin að ganga í skrúðgöngu um götur bæjarins með lúðrasveit og skátum - ásamt öðru fólki - er ótrúleg.

Eftir hressilega göngu í rigningu og smá vindi komum við að Selfosskirkju, þar sem tók á móti okkur presturinn, Sr. Hafsteinn Óskarsson, með vinalegu brosi og stolti yfir öllum sem komu- enda kirkjan nærri því full. Messan var öðruvísi en hin hefðbundna messa, skátar voru í aðalhlutverki og við altarið stóðu fjórir skátar með fjóra fallega íslenska fána að húni.

Tilfinning dagsins var svo sannarlega stolt, að horfa á litla skáta með skikkjurnar sínar labbandi í skrúðgöngu, að fylgjast með litlu systur sinni stjórna skrúðgöngu með íslenska fánann að húni, að ganga í skrúðgöngu á milli foreldra sinna, að fara í guðsþjónustu og njóta hinnar fallegu Selfosskirkju. Allt var þetta fullt af stolti og þökk fyrir daginn í dag, Ísland og kirkjuna.

Einnig fylltist ég stolti þegar mamma og pabbi sögðu mér sögur af sjálfri mér, pínulítilli í messum, trítlandi um allt og sitjandi við altarið hljóð og góð - en börnin í messu dagsins í dag voru flest ekki alveg jafn dugleg og hljóðlát og ég var ;) hehe!

Mér leist svo mikið vel á Séra Hafstein, hann náði vel til allra í kirkjunni og barnanna sérstaklega - sem er nauðsynlegt þegar maður vinnur við þetta starf. Hann sagði margt merkilegt og fór vel við fallegu kirkjuna hér á Selfossi, held að hann væri nú betur metin hér en Séra Gunnar, sem byrjar í júní aftur.

Séra Hafsteinn sagði svo góða sögu í kirkjunni sem mér finnst að allir megi heyra og hugsa um, hún fjallar um það að maður eigi ekki að láta neikvæðis raddir stoppa mann af og draga úr manni duginn heldur að hunsa þær raddir og halda áfram fram á við.

,,Hópur af froskum ætluðu að klífa upp á stórt fjall, ýmsir komu til að fylgjast með þeim en allir voru þó vissir um að froskarnir gætu ekki klifið fjallið, þeir væru nú svo litlir, og sögðu það sín á milli óspart þannig að froskarnir heyrðu og með því gáfust froskarnir upp, hver á eftir öðrum, sem endaði með því að aðeins einn froskur komst alveg upp á topp fjallsins - en hann var nefnilega heyrnalaus. Heyrði ekki neikvæðisraddirnar og komst á toppinn."

Það er nauðsynlegt að horfa fram á við, hlusta ekki á allt þetta neikvæða og hugsa til þess jákvæða :)

Hafið það gott í dag og gleðilegt sumar!

P.S. Ég verð að senda honum Steindóri mínum stoltkveðjur,þar sem hann situr núna alla daga yfir bókum fyrir prófalestur í lögfræðinni.

mánudagur, 20. apríl 2009

Banana- og döðlubrauð

Eftir heljarinnar páskahret er ég öll að koma til - bragðskynið aðeins farið að láta á sér kræla þó að ég sé enn með hellu fyrir eyranu þannig að ég heyri ekki hálfa heyrn þá kemur þetta allt að lokum :) Maður batnar að lokum og er heppin að vera ekki lífshættulega- eða langveik :) Þegar bragðskynið er loks komið langar mig bara í eitt: banana- og döðlubrauð!! Svo að ég ákvað að skella hér uppskriftinni inn af dásamlegu brauði, sykurlaust en fullt af sætum ávaxtasykri þannig að þegar maður borðar brauðið er eins og maður sér að borða eitthvað svaðalega óhollt og sykrað - en nei þetta er bara hollusta! Gott fyrir líkama og sál :)

-----

Döðlu- og bananabrauð

Hráefni:
200 g döðlur
2,5 dl heitt vatn
2 stk stappaðir bananar

1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi

1/2 tsk salt
300 g hveiti (eða 150g spelt og 150g sigtað spelt)
2 stk egg
2 msk olía
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:
Döðlurnar brytjaðar og settar í pott ásamt vatninu, suðan látin koma upp og allt kælt svo aðeins. Þurrefnum blandað saman við, eggjunum og vökvanum hellt út í og allt hrært saman. Sett í tvö aflöng form og bakað í 40 mín. við 200°C.
-----

Þetta er algjört lostæti! Einfalt og gott! Smá smjör ofan á og mjólkurglas! Dásamlegt :)

föstudagur, 10. apríl 2009

Vera þakklátur

Á meðan sumt fólk missir vinnuna og peninga er annað fólk sem missir ástvini. Í Ítalíu er þjóðarsorg vegna jarðskjálfta, þar sem mörg hundruð manns hafa dáið og yfir 1000 manns slasast. Í Írak deyr fólk á hverjum degi og lifir í endalausum ótta við sprengjur og skotárásir. Í Afríku og öðrum þróunarlöndum lifir fólk varla daginn af vegna sjúkdóma eða/og matar- og drykkjaleysis. Align Center
Á Íslandi er meðallífsaldur fólks með því alhæsta sem þekkist í heiminum og um daginn sá ég frétt þar sem meðallífsaldur karlmanna væri sá hæsti á Íslandi. Mikið getum við verið þakklát fyrir það. Við getum verið þakklát fyrir hreina loftið, tæra og góða vatnið, friðinn og lífið hér á Íslandi.

Þó deyr fólk líka á Íslandi og á hverjum degi les maður yfir sorglegar minningargreinar, sér lítil börn eða ungt fólk í blóma lífsins. Alltaf er fólk að missa ástvini; foreldra, börn, afa og ömmur. Á hverjum degi ríkir sorg í einhverju hjarta sem er langtum verri en atvinnuleysi eða peningavandamál.

Ég fór að hugsa um lífið í öðru ljósi eftir að ég komst að því að kona á besta aldri deyr úr krabbameini, kona sem var full af lífi og gleði, naut þess að vera með börnum sínum og barnabörnum, var góður vinnuveitandi og yndisleg að öllu leyti. Þessi kona kemst að því að hún sé með krabbamein og að hún muni deyja eftir nokkra mánuði. Sú tilfinning hlýtur að vera skelfileg og að þurfa að segja sínum nánustu fréttirnar er eitthvað sem enginn getur ímyndað sér.

Maður verður að hugsa til þess jákvæða í lífinu og þakka fyrir allt það góða sem maður á. Lífið getur verið ósanngjarnt og erfitt. Núna eiga margir mjög erfitt og skelfilegt að svona sé komið fyrir okkar góða landi og að fólk eigi ekki mat handa sér og börnum sínum. En til að þrauka svona tíma af og horfa fram á við, verður maður að vera bjartsýnn og jákvæður. Maður verður að vakna á morgnanna, áorka einhverju og líta til framtíðar. Nota tímann sem maður hefur á þessari jörðu, með því fólki sem maður elskar.

Farið vel með ykkur og reynið að njóta lífsins til fulls.. þó það sé oft erfitt.

- Gleðilega páska elskurnar -

mánudagur, 6. apríl 2009

Sveitasælan er dásamleg

Ég er stödd þessa dagana í Blöndudal hjá ömmu minni í Ártúnum. Við erum hér nokkur saman, mamma, Embla systir, Guðrún frænka, Sigga Dögg (dóttir Guðrúnar) og dóttir hennar, Auður Freyja, ásamt Magnúsi Ara barnabarn Guðrúnar sem er 4 ára gamall.

Við Magnús Ari skelltum okkur saman í fjósið í gær sem var ábyggilega álíka gaman fyrir okkur bæði, þar sem hann er lítill polli að sjá ýmislegt í fyrsta sinn og ég að rifja upp gamla tíma í sveitinni. Mér finnst ótrúlega tilfinning að fara með svona strák í fjósið og hugsa til þess að hann fái það tækifæri sem mörg börn fá aldrei, að vera í sveit og upplifa lífið utan borgarmenningarinnar. Auk þess að læra að umgangast dýr og náttúruna.

Við lentum nú í ýmsum ævintýrum þennan klukkutíma sem við vorum í mjöltum í gær. Magnús Ari fékk eitt stykki sveiflandi kúahala framan í sig (sem er afskaplega vont fyrir þá sem hafa ekki lent í því!) og Magnúsa Ari grét aðeins og fibaðist en við komumst mjög fljótt að þeirri niðurstöðu að kýrin hafi bara ekkert vitað af honum þarna, auk þess sem hún notar halann til að kæla sig niður og bægja frá flugum. Við skelltum vörn í sókn og tókum á það ráð að halda í halann þegar einhver sat hjá og mjólkaði svo engin myndi lenda í kúahalaárás eins og Magnús Ari. En að halda í kúahala er heilmikið átak.. þær eru "naut"sterkar og nautahali líkari svipu en hala! Oddhvass og berjandi.

Fleira sem skeði var að kálfar voru að sleikja á okkur hendurnar og reyna að rífa þær inn í sig... en þær eru líka rosalega sterkar í tungunni og eru fljótar að ná lítilli hendi upp í sig! Lítill nýfæddur kálfur hleypur um allt fjósið hoppandi og skoppandi auk þess sem villiköttur er búin að fá sér bólfestu í fjósinu og kvæsir á þá sem nálgast sig!

Í kvöld ætlum við að skella okkur aftur í fjósið og skemmta okkur :) Að fara með barn í sveit og fjós er frábær upplifun og að gera það sjálfur er líka rosalega skemmtilegt! Þessi upplifun lifir með barninu alla tíð og breytir ýmsu í hugsun og heðgun að hafa verið í sveit til hins betra ;)