fimmtudagur, 23. apríl 2009

Tilfinning dagsins er stolt

Í dag vaknaði ég glöð, enda sumardagurinn fyrsti sérstakur dagur, skellti mér í föt og fór út ásamt foreldrum mínum í skrúðgöngu. Sigríður Embla systir mín var þar fremsti skáti í göngunni, hélt á fána og stjórnaði ferðinni. Ég fylltist stolti þegar ég sá hana í þessu hlutverki og tilfinningin að ganga í skrúðgöngu um götur bæjarins með lúðrasveit og skátum - ásamt öðru fólki - er ótrúleg.

Eftir hressilega göngu í rigningu og smá vindi komum við að Selfosskirkju, þar sem tók á móti okkur presturinn, Sr. Hafsteinn Óskarsson, með vinalegu brosi og stolti yfir öllum sem komu- enda kirkjan nærri því full. Messan var öðruvísi en hin hefðbundna messa, skátar voru í aðalhlutverki og við altarið stóðu fjórir skátar með fjóra fallega íslenska fána að húni.

Tilfinning dagsins var svo sannarlega stolt, að horfa á litla skáta með skikkjurnar sínar labbandi í skrúðgöngu, að fylgjast með litlu systur sinni stjórna skrúðgöngu með íslenska fánann að húni, að ganga í skrúðgöngu á milli foreldra sinna, að fara í guðsþjónustu og njóta hinnar fallegu Selfosskirkju. Allt var þetta fullt af stolti og þökk fyrir daginn í dag, Ísland og kirkjuna.

Einnig fylltist ég stolti þegar mamma og pabbi sögðu mér sögur af sjálfri mér, pínulítilli í messum, trítlandi um allt og sitjandi við altarið hljóð og góð - en börnin í messu dagsins í dag voru flest ekki alveg jafn dugleg og hljóðlát og ég var ;) hehe!

Mér leist svo mikið vel á Séra Hafstein, hann náði vel til allra í kirkjunni og barnanna sérstaklega - sem er nauðsynlegt þegar maður vinnur við þetta starf. Hann sagði margt merkilegt og fór vel við fallegu kirkjuna hér á Selfossi, held að hann væri nú betur metin hér en Séra Gunnar, sem byrjar í júní aftur.

Séra Hafsteinn sagði svo góða sögu í kirkjunni sem mér finnst að allir megi heyra og hugsa um, hún fjallar um það að maður eigi ekki að láta neikvæðis raddir stoppa mann af og draga úr manni duginn heldur að hunsa þær raddir og halda áfram fram á við.

,,Hópur af froskum ætluðu að klífa upp á stórt fjall, ýmsir komu til að fylgjast með þeim en allir voru þó vissir um að froskarnir gætu ekki klifið fjallið, þeir væru nú svo litlir, og sögðu það sín á milli óspart þannig að froskarnir heyrðu og með því gáfust froskarnir upp, hver á eftir öðrum, sem endaði með því að aðeins einn froskur komst alveg upp á topp fjallsins - en hann var nefnilega heyrnalaus. Heyrði ekki neikvæðisraddirnar og komst á toppinn."

Það er nauðsynlegt að horfa fram á við, hlusta ekki á allt þetta neikvæða og hugsa til þess jákvæða :)

Hafið það gott í dag og gleðilegt sumar!

P.S. Ég verð að senda honum Steindóri mínum stoltkveðjur,þar sem hann situr núna alla daga yfir bókum fyrir prófalestur í lögfræðinni.

2 ummæli: