miðvikudagur, 30. desember 2009

Ef ég næ ekki hjúkrunarfræðinni....

Þó engin lesi þetta.. þá skrifa ég samt :)

Eftir 9 daga fæ ég úrskurð um hvort að ég hafi náð inn á vorönn við hjúkrunarfræðideildina í HÍ. Hlakka mjög til að sjá og loks fá að vita hver niðurstaðan sé!

Prófin gengu sæmilega - maður uppsker þó eins og maður sáir - og fyrsta önninn í háskóla er ansi snúin og í staðinn fyrir að læra og lesa eins og þarf þá fer tíminn meira og minna í að velta upp ýmsum leiðum til að læra námsefnið sem best og hvar sé best að leggja áherslur. Þess vegna var ýmislegt frumlesið - því miður - rétt fyrir prófin og gengu prófin eftir því. Seinasta prófið var þó verst þar sem ég hafði lagt mikla áherslu á gömul próf sem mér áhlotnaðist - sú áhersluaðferð var röng þar sem nær engar spurningar komu af gömlum prófum þrátt fyrir að flestir kennarar noti gagnagrunninn og spurningarnar þar handahófskennt.

Verði ég ekki ein af þeim 120 sem komast áfram af þeim a.m.k 200 sem reyndu við þau - þarf ég að finna ný verkefni - og er fullviss um að þau verkefni og tækifæri sem manni hlotnast við fall annarsstaðar verði mér lærdómsrík og skapi reynslu sem maður á alla ævi og engin getur tekið af manni. Svo hvað er best að gera?

Þegar ég fór í gegnum mögulegar námsleiðir hjá HÍ komst ég að því að þar var eitt fag sérstaklega sem að vakti áhuga minn - Þjóðfræði. Auk þess er hægt að taka hana sem aukagrein - 60 einingar. Fullt af spennandi fögum sem að ég held að gætu verið mjög skemmtileg til að takast á við!
En annað vakti áhuga minn og athygli - Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað! Þar færi maður í allskonar spennandi fög - handavinnu, matreiðslu og ýmislegt fleira.

Svo hvað er best að velja? Auðvitað hefði maður gott af því að vinna - en vinnuframboð er af skornum skammtum í þessari tíð.

Í augnablikinu er húsó að vinna þjóðfræðina. En auðvitað held ég í vonina um að komast áfram í hjúkrunarfræðinni þó ég búist við því versta - þá verður maður ekki fyrir jafn miklum vonbrigðum.

Jæja.. nóg af blaðri.. Gleðilegt nýtt ár!! Knúskveðja, H

miðvikudagur, 23. desember 2009

Gleðileg jól elskurnar mínar



Jólahátíð fer að ganga í garð - þakklæti er efst í huga mér á þessum síðustu og verstu tímum - þakklæti fyrir að eiga yndislega að - að eiga þak yfir höfði mér og mat ofan í mig. Ég er þakklát fyrir námið sem mér hlotnaðist að iðka seinustu mánuði.

Hér heima á Selfossi hefur lífið verið afskaplega gott seinustu daga - bakstur, tiltekt, konfektgerð, prjónaskapur og auðvitað myndir og grey's anatomy inn á milli lota :) Hef knúsað köttinn, kúrt með Emblu og haft það yndislegt!

Jólatréð er komið upp, The Holiday í tækinu, kötturinn búin að taka upp fyrsta jólapakkann sem innihélt harðfiskbita ;) Allar jólagjafir komnar á sinn stað og aðeins örfá kort eftir sem verður skellt í hús á morgun :) Svo nú mega jólin bara koma með öllum sínum sjarma og notalegheitum :)

Hafið það sem allra, allra best - knúsiði ættingjana ykkar og vini - njótið hvers einasta augnabliks með þeim sem þið elskið - því það gæti verið það seinasta... :)

Jólaknús til ykkar allra og fjölskyldna ykkar :) :*

þriðjudagur, 15. desember 2009

Sjálfboðastarf í jólafríinu :)

Jæja þá er prófatörnin búin og tími til að blogga :) Svakalega ljúft að vera í jólafríi og njóta þess að vaka þegar maður vill vaka og vakna þegar maður vill vakna :)

Á morgun ætla ég að fara í sjálfboðastarf - við Embla sys ætlum að skella okkur í Norðlingaholtið og hjálpa við aðstoð á matarúthlutun til þeirra sem minna mega sín - sem mæðrastyrksnefnd sér um :) Hlakka mikið til ;) Held að ég þurfi að gefa e-ð af mér núna þessi jól og jafnvel næstu jól til þess að ég geti notið jólanna sjálf :)

En gaman að segja frá því - að ég í mínu prófakasti og þeir sem þekkja erfiðan prófatíma vita að persónuleikinn manns breytist auk ýmiss annars í fari manns. Og í þessu kasti mínu ákvað ég að fara að sækja um að taka þátt í þessu sjálfboðastarfi - en þar sem ég var að skoða í gegnum síðu hjálparstarfs kirkjunnar sé ég að til þess að aðstoða þarf að sækja um fyrir 10.des auk þess að það þarf að vera á vissum tíma og vissum stað - einhversstaðar út í þið vitið hvar - og vegna þessa ákvað ég að skrifa bréf til yfirmanneskju þar um hve fáránlegt þetta væri og að þetta flókna umsóknarferli myndi nú bara fæla burt þá sem til eru í að hjálpa til og gefa vinnu sína! Næsta dag berst mér símtal frá þessari yfirmanneskju þar sem hún er hissa á bréfinu og skilur hreint ekkert hvað ég er að tala um...

...þá kemst ég að sannleikanum - það sem ég hafði skoðað var ekki umsókn til að taka þátt í sjálfboðastarfi við að aðstoða - heldur umsókn til að fá aðstoð - þ.e.a.s. fá matarpakka! Sem skiljanlega er flóknara en hið fyrrnefnda!

En jæja nóg af bulli.. farin að horfa á crockodile dundee með emblu, þórdísi og heimsa :) Knús á alla og veriði góð við hvort annað - og í guðanna bænum ekkert jólastress! ;)

föstudagur, 27. nóvember 2009

Hví er kynjamunur?

Ég er búin að vera svo dugleg að læra í dag að ég ætla bara að verðlauna mig með bloggi milli lota :) Ég var nefnilega að lesa kafla um kynhlutverk og kynjamun og þar voru ýmislegt sem fékk mig til að hugsa...

En til að byrja með þá myndi ég ekki flokka sjálfa mig sem feminista - mér finnst það aðeins of ýkt hugmyndafræði fyrir mig - a.m.k kemur hún manni þannig fyrir sjónir. Ég trúi á jafnræði og þá meina ég í allar áttir - mér finnst ekki jafnræði vera ef að fólk neyðist til að finna konu í starf bara vegna þess að það þarf að vera 50% konur í stjórninni (eða e-ð þess háttar) - konur verða að sjálfsögðu að sækja í stöðurnar sjálfar og vera hæfar í þær - því með svona leiðum er bara gert lítið úr konum og þeirra verðleikum ef þær eru ekki ráðnar á réttum forsendum - því það er alveg jafn slæmt að vera ráðin bara af því að maður sé kona eins og að vera ekki ráðin af því að maður sé kona.

En pælingin er bara sú - af hverju er þessi mikli munur á kynjunum - auðvitað er líffræðilegi munurinn mikill - körlum vex skegg - konur geta eignast börn o.fl. En kynjamunurinn byrjar strax við fæðingu auk þess sem áhrif foreldra eru að sjálfsögu mjög mikil - ef móðirin sér alltaf um að elda þá er líklegt að stelpunni finnist sjálfsagt að gera það á sínu eigin heimili.

Í könnun frá reyndar 1998 kom í ljós að konan vann almennt 5 klst meira en karlmaður á viku en karlar unnu 15 klst meira utan heimilis en konan - þar kom líka í ljós að konan sá meira um börnin (9klst meira) en karlmaðurinn. Vonandi hefur þetta e-ð breyst og að sjálfsögðu mjög líklegt að hafi breyst - en þetta er samt svolítið umhugsunarvert.

Mér finnst fólk aðallega bara vera einstaklingar en ekki bara eitthvað kyn og að það þurfi ekki að ráða fólk í vinnur vegna kyns - ef að kona hefur áhuga á "karladjobbi" og hefur það sem þarf þá sé ég ekkert í vegi fyrir því að hún fái starfið (ef hún er hæfust) og eins öfugt.
Ég held að áhugasvið hvers og eins sé mjög misjafnt og það þarf alls ekki að hafa neitt með kyn að gera - Það eru t.d. mun fleiri í mínu fagi kvenkyns en það er ekki víst að það sé út af því að stelpur hafi meiri áhuga á því starfi né séu hæfari í það - heldur sé það að mestu leyti venjan og þ.a.l. detti strákum ekki í hug að fara í það starf (þó alls ekki allir - því það eru nú nokkrir (7 af 240) flottir með okkur í hjúkkunni). Einnig eru hæfileikar ekki kynbundnir að mínu mati þó þeir komi oft þannig út - en það getur líka tengst þessum venjum og siðum sem að samfélagið hefur mótað í okkur og við teljum "venjulega".

Ég sem dæmi byrjaði ekki að þvo þvottinn minn þegar ég fermdist af því að ég var kona - heldur vegna þess að ég varð sjálfstæðari, vildi fullorðnast og hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun síðan - því hver er betri í að þvo þvottinn manns en maður sjálfur! Auk þess tel ég þetta vera stóran part í sjálfstæði hvers og eins að geta þvegið fötin af sjálfum sér! Þannig að af hverju ættu þvottar að tengjast sjálfkrafa við konur? Kannski gerir það það ekki lengur.. vonandi ekki..

En hvað er þetta þá.. hvernig festast þessi kynhlutverk svona rosalega í sessi hjá okkur og mikið væri nú gott ef hægt væri að fleygja öllum þessum gildum, viðhorfum, venjum og siðum í ruslið og byrja á hvítum, hreinum grunni þar sem allir væru jafnir; hvernig sem þeir líta út eða hvaða kyni þeir tilheyra því að þá held ég að heimurinn myndi fúnkera mun betur og mér þætti aðallega mjöög spennandi að sjá hvort að konur færu í "kvennastörfin" og karlar í "karlastörfin"

En til að enda þetta á uppáhaldi allra - heimilsstörfunum - þá tel ég konur ekkert vera hæfari í þeim störfum en karlar - þetta er allt bara venjur, siðir og að sjálfsögðu uppeldi - og smá punktur til ykkar strákar - að þvo þvotta og þrífa gólf (ásamt öðrum heimilisverkum) er enganvegin hluti af áhugamálum og sviðum stelpna.. þannig að þið eruð alls ekki að fara inn á þeirra svæði þó þið takið aðeins í þvottavélina (ef þær hleypa ykkur í það tryllitæki) ;)

En þá hef ég komið þessu frá mér og get aftur farið að einbeita mér að félagfræðinni! Veltið þessu fyrir ykkur og endilega commentið :)

Njótið lífsins og lifið heil - alveg sama hvernig þið lítið út eða eruð ;) KNÚS!

þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Vinaminni

Fyrir tæpu ári (í jan '09) samdi Steindór Dan ljóð fyrir ömmu sína og afa, skrifaði það á fremstu síðu fínnar gestabókar sem hann afhenti þeim í notalega bústaðnum þeirra í Kjósinni :) Þegar hann las ljóðið upphátt fyrir fjölskylduna þá var varla þurr hvarmur á svæðinu - þau áhrif hafði ljóðið á hlustendurna sem vita allir hve yndislegt það er í Vinaminni (bústaðnum) en fannst ótrúlegt hvernig Steindór náði að setja þær miklu og góðu tilfinningar í ljóð með stuðlum og höfuðstöfum - það er ekki sjálfsagt verk! Hann hefur ótrúlega náðargáfu - þó ég telji mig sjálfa nú vera skáldagyðjuna hans - þá gerir hann nú meira í ljóðagerðinni en ég - ég þarf bara að vera til :) haha.. en án alls gríns þá ákvað ég að skella inn þessu fallega ljóði og hvetja ykkur öll til að skoða www.ljod.is/steindor og lesa öll fallegu ljóðin hans - fyndnu og skemmtilegu :)


Vinaminni

Inn á milli fagurra fjallatinda
og firninda, sem náttúruna mynda,
finna má í sælli veröld sinni
sumarhús, sem heitir Vinaminni.

Á botninum í djúpum, fögrum dalnum
dvelur það, í miðjum fjallasalnum.
Hvort sem er, að vori eða að vetri,
veður gerast hvergi á landi betri.

Hér logar ávallt lífsins besti eldur
og logi hans í öllum brjóstum veldur
hamingju og heimsins besta friði,
sem heyra má í tærum lækjarniði.

Hér er ávallt afar kátt á hjalla
og ómar stundum gleði um Kjósina alla.
Sumir kátir syngja um heima og geima
en sumir lúra vært í koju og dreyma.

Fátt er betra en hér í ró að hafa
hæga stund með ömmu sinni og afa.
Í sældarför á værðarinnar vegi
ég varið gæti hérna hverjum degi.

En öll við þurfum Kjósina að kveðja
og kann það eigi nokkurt hjarta að gleðja.
En hingað verkar frækinn feiknarkraftur,
svo fljótt við munum snúa hingað aftur.

Því hvergi er í veröld betra að vera
og víst mun ávallt ljúfa í brjósti bera
minningu um bústað sem í sinni
sælu veröld lifir - Vinaminni.
SDJ


Ég hrósa honum alls ekki nógu mikið fyrir öll fallegu ljóðin sem hann hefur ort fyrir og um mig - allar ferskeytlurnar sem hann hendir fram á örfáum mínútum í bílnum og skrifar inn í afmæliskort - á leiðinni í afmælið og hin fjölmörgu, fjölbreyttu og frábæru ljóð sem koma eins og ekkert séð! Hann er alveg magnaður og fær hrós dagsins og bara örugglega ársins fyrir þessi stórkostlegu ljóð hans :)

föstudagur, 6. nóvember 2009

Hjónaskilnaðir og hrós dagsins :)

Skólinn gengur sinn vanagang.. maður er aldrei nógu duglegur en nú er nóvember gengin í garð og þá duga engar afsakanir!! Nú er það bara hlaðan á hverjum degi og fram á kvöld! Ræktin kl. 6 á morgnanna og eintómur dugnaður! Inn á milli fær maður sér fljótandi járn-sjúss og orkudrykk – milli þess sem maður maular nestið (sem maður auðvitað smyr heima fyrir daginn í kreppunni) En það er margt áhugavert sem kemur í ljós í náminu.. ég er í ýmsum mismunandi fögum; siðfræði, sálfræði, félagsfræði, líffærafræði og lífefnafræði.. og ég vildi óska að ég gæti prentað allt inní höfðið á mér og að ég hefði betra sjónminni þar sem það er svo margt spennandi og fræðandi sem væri gaman að muna! Kannski ég fari bara að blogga um það mest spennandi og fræðandi úr náminu... svona til að fræða aðra og rifja sjálf upp ;)

Í félagsfræðinni var t.d. rætt í gær um hjónaskilnaði og ástæður þeirra, og þær geta komið manni mjög á óvart.. t.d. finnst manni rökrétt að þegar aðili hefur skilið einu sinni þá læri hann af því og lagi sitt samband og láti næsta samband virka og manni finnst oft óeðlilegt að sumir skilji aftur og aftur.. falli alltaf í sömu gryfjuna, en rannsóknir sýna að það eru meiri ástæður á hjónaskilnaði hafi fyrri skilnaður orðið – hjá annað hvort öðrum aðilanum eða báðum! Mér fannst líka merkilegt að ef fólk byrjar ekki á að trúlofa sig eða að vera trúlofaður í soldinn tíma áður en gifting á sér stað – þá eru meiri líkur á skilnaði! Maður heyrir oft talað um að þegar fólk sé ólíkt þá byggi það hvort annað upp og að það sé jákvætt að vera ólík – hjónaskilnaðir eru aftur á móti mun líklegri hjá fólki sem er með ólíkan bakgrunn. Einnig finnst mér alveg makalaust að það séu meiri líkur á að þegar aðilar séu báðir úr þéttbýli að þá séu meiri líkur á hjónaskilnaði... en jæja nóg um hjónaskilnað!
Bara smá fróðleikspunktar fyrir ykkur yndislega fólkið sem les bloggið mitt! :)

Svo ætla ég að innleiða nýjan „fítus“ á blogginu mínu – hróshornið! Og mun héðan í frá enda hvert blogg með að hrósa einhverjum sem á það skilið :)

Í dag ætla ég að hrósa Þórdísi frænku fyrir öll spjöllin, allar kózýstundirnar, að eiga jafn yndislega dóttur og öll skutlin og förin út um allar trissur :) Hún er algjörlega frábær :*

Knús á alla í tilefni þessa föstudags :) Vona að öllum líði vel, kv. Halla Ósk

föstudagur, 18. september 2009

Rétt hugarfar í háskóla

Ég er byrjuð í hinni virðulegu stofnun Háskóla Íslands! Óvenju margir skráðu sig í ár og metskráning í t.d. hjúkrunafræðideildina! En eru allir að fara í skólann með rétt hugarfar eða er fólk bara í skóla í stað þess að sitja heima í atvinnuleysi? Auðvitað getur ekki verið neitt neikvætt við að ganga í skóla en spurningin er hvort að það hagnist hinum sem fara í skólann með "rétt" hugarfar..

Í tímum hjá mér er allt fullt af nemum, 240 nemendur í hverjum tíma.

Hvað er fólk að gera í háskóla sem að hangir í tímum á facebook allan daginn, inná leikjasíðum eða þaðan af verra! Fólk hagar sér eins og í framhaldsskóla eða jafnvel grunnskóla og stundum trúi ég ekki mínum eigin eyrum þegar salurinn hefur breyst í fuglabjarg og það heyrist ekki í kennaranum! Einnig skil ég ekki alveg hvað fólk er að gera í tímanum ef það fæ óstoppandi, gjallandi og mjög hávær hláturköst yfir einhverju á facebook eða öskrar "YESSSS" þegar kennarinn segir að tíminn sé búinn!

Svona fólk má nú bara vera heima hjá sér í stað þess að trufla tímann fyrir öðrum og sýna kennaranum virðingaleysi! Von mín er bara sú að þetta fólk komist svo ekki í gegnum klásusinn í staðinn fyrir þá sem virkilega eru þarna með hugann við hjúkrunarfræði, hafa metnaðinn og áhugan!
Vonandi "sigra" þeir "góðu" og komast í gegn í desember!
-en aðeins 120 manns komast áfram í des!

föstudagur, 24. júlí 2009

Aumingjar?

Eru Íslendingar í alvörunni að breytast í aumingja? Ég trúi því bara ekki upp á þjóðina.. að væla yfir atvinnuleysi og kreppu en taka svo ekki vinnu þegar hún býðst! Mér finnst þetta hneisa! Mér finnst reyndar líka hneysa að atvinnuleysisbætur séu hærri en sum laun! Það er út í hött.. en er ekki betra að vera í vinnu þó launin séu ekki upp á marga fiska heldur en að hanga heima upp í sófa alla daga að góna út í loftið.... hrikaleg þróun!

Auðvitað hefur þetta fólk sína hlið sem maður þekkir kannski ekki.. mögulega vill það ekki eyða sumrinu í að vinna (fólk sem hefur alltaf fengið sitt sumarfrí annars staðar) og vill því bíða með að fá sér vinnu þar til eftir sumarið.. einnig hefur fólk kannski engan áhuga á vinnunni sem býðst en mér finnst það harla góð afsökun (sérstaklega eftir að manni er oft boðin vinna (mismunandi býst ég við) og þiggur hana ekki)).

Ég vil ekki trúa því að við séum að breytast í aumingja.. að næsta kynslóð sé orðin svona.. mín kynslóð! Ég vil ekki trúa því.. Ég er amk þakklát fyrir að hafa mína vinnu þrátt fyrir að hún geti oft verið erfið og full mikil þá er ég þakklát og vona að fólk kjósi frekar að hafa vinnu en að hanga heima á bótum!

Annars er ég farin að lúlla.. Embla sys kemur í nótt og verður yfir helgina.. ýkt spennt! Knús, H.

þriðjudagur, 30. júní 2009

Fréttablogg

Jæja nú verð ég að sýna lit og líf hér þannig að eitt tilgangslaust fréttablogg... stiklað á stóru!

Ég er komin með íbúð á stúdentagörðunum og brosi út að eyrum! Fæ hana 13.júlí og þetta verður æðislegt! Nú er bara að redda öllu sem þarf, borðum og dóti.. en það kemur allt í ljós og reddast örugglega allt saman :) Þið hendið amk ENGU ef þið ætlið að losa ykkur við e-ð þar sem ég gæti vel haft not fyrir það!

Næsta haust verður semsagt í RVK - á stúdentagörðunum - í hjúkrunarfræði (er komin inn!:D) og svo heima að vinna aðra hvora helgi á Fossheimum (elliheimilinu sem ég er á núna í sumar).

Annars er bara allt gott.. mikil vinna og alltaf nóg að gera en þá er bara að slaka vel á, þegar maður á frí :) Er alveg að verða búin með heklaða teppið mitt og þá er bara að skella sér í diskamotturnar :) Nú þarf ég að hafa hraðar hendur ef ég á að klára allt áður en ég fæ íbúðina - því það eru ekki nema hálfur mánuður í það takk fyrir :D

Vinnan er frábær, lífið er yndislegt og svefninn er ææði!

Fariði vel með ykkur, knús!

laugardagur, 6. júní 2009

Hreyfing

Ég hef nýlega uppgötvað hugtakið "hreyfing".. hafði áður aldrei stundað neinar íþróttir eða haft einhverja unun að því að hreyfa mig og taka á.. nema mögulega í fótbolta í frímínútum - og þá var ég oftast í marki! En í vor ákvað ég að taka mig á og breyta þessum venjum. Skráði mig í Þrek og þoltíma sem eru í hádeginu tvisvar í viku og eru alveg frábærir! Fyrsti var auðvitað hell og ég að deyja eftir hann en í gær eftir hva ca. 2 vikur fann ég að þetta var bara gaman og gott! Hætti að gefast upp eða "svindla" með því að taka aaðeins færri armbeygjur á meðan þjálfarinn horfði ekki á. Kom úr tímanum full af orku, hjólaði heim og í sund en endaði reyndar í pizzu heima hjá Anný frænku... en það er algjört aukaatriði ;)

Í dag gengum við upp á Esjuna - ég, Steindór, Sandra, Arndís, Inga og Guðni - það var rosa gaman.. auðvitað algjört helvíti upp á við - enda ákváðum við að fylgja engum göngustígum heldur fórum okkar ótroðnu slóðir! En þvílík gleði þegar ég kom niður - þá var maður loks komin í rétta fílinginn og hefði alveg getað verið lengur! Það er líka stórkostlegt að ganga í íslenskri náttúru - sérstaklega í jafn geðveiku veðri og í dag, endalaus sól og taumlaus gleði!

Jæja.. sit hér í Skerjafirðinum skaðbrunninn eftir langan og troðin dag - Esjan, sund, barnaafmæli Orra og Sólný (systurbörn mín) og svo á landsleik í fótbolta (Ísland - Holland) sem var rosalegt fjör! ;) En njótið náttúrunnar og hreyfið ykkur nú í sumarblíðunni - það er frábært :) - a.m.k. eftirá... :)

sunnudagur, 24. maí 2009

Afmælisgrísinn að blogga

Jæja.. þá er maí að fara að verða búinn.. mikill afmælismánuður í fjölskyldunni þar sem Maggi frændi á afmæli 15.maí, mamma 18.maí, Embla systir 24.maí og ég 25.maí.. og svo auðvitað fleiri sem eru aðeins fjar manni. En það er líka búið að baka mikið þessa dagana!! Maggi frændi varð tvítugur (ekki 18....haha) og að tilefni dagsins ákváðum við systur að baka köku handa honum, súkkulaðiköku í laginu eins og rafmagnsgítar, með lakkrísreimum fyrir strengi og snuð fyrir skrúfur ;) Rosalega flottur! Á afmæli mömmu og Emblu gerði ég svo sitt hvora marengskökuna sem voru báðar hjartalaga og sætar :) Kannski fer maður bara að baka kökur í afmælisgjafir á krepputíð! ;)

Við frænkur; ég, Anný og Embla skelltum okkur á ekta sveitaballstónleika í gær með Hjördísi Geirs, Þorvaldi Halldórssyni, Labba í Glóru og fleiri góðum. Línudans og samkvæmisdansar dansaðir undir og svaka stuð! :) Maður reynir að vera svolítið menningarlegur þegar menningardagarnir Vor í Árborg er á svæðinu :)

En mikið er maður nú þakklátur fyrir lífið og tilveruna þegar maður sér tilkynningar um dauðaslys og það sem hryllilegra er, allt fólkið sem lifir af slysin en er skaddað (misilla sem betur fer) en sumir illa skaddaðir, ná sér aldrei. Þá er nú oft betra að deyja held ég... Dauðinn þarf ekki að vera það versta við bílslysin! Sáum nú um daginn í kastljósinu viðtal við stelpur sem að höfðu verið að spyrna og stórslösuðu sig, ein dó og önnur er illa sködduð!

Keyriði varlega ljúfurnar mínar og hafið það gott :* Afmælisknús til ykkar frá okkur Emblu afmælisgrísum :)

miðvikudagur, 6. maí 2009

Ýmislegt að gerast

Jæja... eitt látlaust, grynnra og slakara en seinustu svaðablogg!

Dagurinn í dag er dagur sem fyllir mann af bjartsýni og jákvæðni. Veðrið er dásamlegt, skyggnið frábært og lífið einhvernvegin leikur við mann á svona dögum. Sumarið er svo sannarlega að koma með allri sinni dýrð og gleði :) Ég sit þessa dagana heima í hálfgerðri slökun þar sem skólinn er búinn og aðeins eitt próf í skólanum - 13.maí. En maður brallar nú ýmislegt þó maður sé heima við.

Er með mörg verkefni:
- er t.d. að hekla mér teppi núna sem er afskaplega skemmtilegt, er búin með 50 dúllur af 112 og bara kannski þrjár vikur síðan ég byrjaði þannig að það er bara allt sett í fimmta gír! Ætla að klára þetta teppi fyrir haustið þegar við förum að búa ;)
- svo er ég með saumaskap á fullu - er að sauma í diskamottur sem ég ætla líka að setja í búið ;)
- á prjónunum er ég allt með ýmislegt, eyrnaband, pils og tátiljur m.a.

Svo það er maargt hægt að gera! Auk þessa alls er ég að lesa Vonarstræti og að fara að byrja á Flugdrekahlauparanum. Þegar maður hefur ekkert að gera er sjónvarpið ágætur tímaþjófur auk þess sem eftirmiðdagslúrar eru dásamlegir!

En í dag skellti ég mér í krabbameinsskoðun - fjör, fjör - og kíktum svo á Þórdísi frænku og hana Stefaníu litlu uppáhalds. Svo ætla þær að koma eitthvað í heimsókn á næstu dögum þannig að það er bara gaman :) Auk þess sem við Embla skelltum okkur í mat og GREY'S hjá Anný frænku áðan, göngutúr og kózýtime þannig að þetta var voðalega ljúft :) Svo er framundan rosa 6 vikna námskeið - Þrek og þol - eða eins og ég segi stundum - Þel og Þrol - sem verður rosalegt fjör! ;)

Lífið er fullt af gleði og ánægju ef maður lítur þannig á það! Gengur ekkert annað :) En ég er farin að sofa! Góða nótt ljúfurnar og eigiði góða daga framundan :)

mánudagur, 27. apríl 2009

Grín á kostnað annarra

Ég hef mikið velt fyrir mér þessu hugtaki að grínast með eitthvað.. fólk segir oft eitthvað sem á að vera grín en samt hefur maður það á tilfinningunni að manneskjan hafi meint það og verið að reyna að koma einhverju á framfæri með því að fara "skondnu leiðina".

Ég hef alltaf verið mjög á móti bröndurum sem eru á kostnað annara - sérstaklega þegar þeir eru særandi. Þegar ég fór einu sinni á Galtalæk um verslunarmannahelgi man ég eftir einu þess háttar uppistandi - þar var Jón Gnarr upp á sviði að taka einhvern vissan hóp fólks "í nefið" - man ekki hvaða hópur það var en hann var frekar lítill en þó heilmiklar líkur á því að einhver fyrir framan sviðið flokkaðist undir hann. Ég þoldi ekki að horfa í kringum mig og sjá hina hlæjandi að þessu.. að láta hann fá þá ánægju að fólk hlæji að honum þegar hann er að gera jafn ljótan brandara á kostnað annarra bara til að vera fyndinn. Það er léleg leið og ódýr! Síðan þá hefur mér ekki líkað við Jón Gnarr hehe...

Spaugstofan tekur marga fyrir í sínum vikulegu annálum og er margt mjög fyndið auk þess sem þeir sýna manni oft aðrar hliðar á málum líðandi stundar. En það sem ég hef verið að velta fyrir mér nýlega er hvernig grínið á kostnað t.d. forseta Íslands er háttað.. hvort það sé ekki orðið fullmikið á tímum. Ég skil vel að alþingismenn og aðrir sem eru í fréttum og þess háttar séu gagnrýndir fyrir sín orð og hætti en er ekki orðið svolítið slæmt þegar forsetinn fær svona yfir sig.. á maður ekki að bera meiri virðingu fyrir forseta lýðveldisins en svo? Ég man nú ekki eftir að Vigdís hafi t.d. nokkurn tíma fengið svona yfir sig.
Ýmsir eru á móti Ólafi Ragnari og hafa sínar ástæður sem ég skil en Ólafur Ragnar hefur að mínu mati ekkert gert sem ég persónulega get verið á móti.. hann var meðfylgjandi útrásinni eins og flestir Íslendingar og mjög margir voru á þessum tíma..ekki hægt að ráðast á hann einn út af því. Auk þess sem grínin á kostnað Ólafs Ragnars hafa oftast ekkert með hans ákvarðanir að gera heldur hvernig hann lítur út eða ber sig.. eða hvernig konan hans ber sig og þau sem hjón..

Æ, mér finnst leiðinlegt að horfa á svona og sjá sömu skopatriðin endurtekin um forsetann okkar. Hann á ekki skilið svona óvirðingu frá þjóðinni - við kjósum hann lýðræðislega og höfum gert það.. ef við höfum eitthvað á móti honum verðum við bara sjálf að gera eitthvað í því eða fara í forsetaframboð!

P.S. Ég skellti bílhurð mjög fast í andlitið á mér, er bólgin og bíð eftir marblett! Haha.. skooondið! ;) ...bara svona til að hressa aaaðeins upp á bloggið :)

fimmtudagur, 23. apríl 2009

Tilfinning dagsins er stolt

Í dag vaknaði ég glöð, enda sumardagurinn fyrsti sérstakur dagur, skellti mér í föt og fór út ásamt foreldrum mínum í skrúðgöngu. Sigríður Embla systir mín var þar fremsti skáti í göngunni, hélt á fána og stjórnaði ferðinni. Ég fylltist stolti þegar ég sá hana í þessu hlutverki og tilfinningin að ganga í skrúðgöngu um götur bæjarins með lúðrasveit og skátum - ásamt öðru fólki - er ótrúleg.

Eftir hressilega göngu í rigningu og smá vindi komum við að Selfosskirkju, þar sem tók á móti okkur presturinn, Sr. Hafsteinn Óskarsson, með vinalegu brosi og stolti yfir öllum sem komu- enda kirkjan nærri því full. Messan var öðruvísi en hin hefðbundna messa, skátar voru í aðalhlutverki og við altarið stóðu fjórir skátar með fjóra fallega íslenska fána að húni.

Tilfinning dagsins var svo sannarlega stolt, að horfa á litla skáta með skikkjurnar sínar labbandi í skrúðgöngu, að fylgjast með litlu systur sinni stjórna skrúðgöngu með íslenska fánann að húni, að ganga í skrúðgöngu á milli foreldra sinna, að fara í guðsþjónustu og njóta hinnar fallegu Selfosskirkju. Allt var þetta fullt af stolti og þökk fyrir daginn í dag, Ísland og kirkjuna.

Einnig fylltist ég stolti þegar mamma og pabbi sögðu mér sögur af sjálfri mér, pínulítilli í messum, trítlandi um allt og sitjandi við altarið hljóð og góð - en börnin í messu dagsins í dag voru flest ekki alveg jafn dugleg og hljóðlát og ég var ;) hehe!

Mér leist svo mikið vel á Séra Hafstein, hann náði vel til allra í kirkjunni og barnanna sérstaklega - sem er nauðsynlegt þegar maður vinnur við þetta starf. Hann sagði margt merkilegt og fór vel við fallegu kirkjuna hér á Selfossi, held að hann væri nú betur metin hér en Séra Gunnar, sem byrjar í júní aftur.

Séra Hafsteinn sagði svo góða sögu í kirkjunni sem mér finnst að allir megi heyra og hugsa um, hún fjallar um það að maður eigi ekki að láta neikvæðis raddir stoppa mann af og draga úr manni duginn heldur að hunsa þær raddir og halda áfram fram á við.

,,Hópur af froskum ætluðu að klífa upp á stórt fjall, ýmsir komu til að fylgjast með þeim en allir voru þó vissir um að froskarnir gætu ekki klifið fjallið, þeir væru nú svo litlir, og sögðu það sín á milli óspart þannig að froskarnir heyrðu og með því gáfust froskarnir upp, hver á eftir öðrum, sem endaði með því að aðeins einn froskur komst alveg upp á topp fjallsins - en hann var nefnilega heyrnalaus. Heyrði ekki neikvæðisraddirnar og komst á toppinn."

Það er nauðsynlegt að horfa fram á við, hlusta ekki á allt þetta neikvæða og hugsa til þess jákvæða :)

Hafið það gott í dag og gleðilegt sumar!

P.S. Ég verð að senda honum Steindóri mínum stoltkveðjur,þar sem hann situr núna alla daga yfir bókum fyrir prófalestur í lögfræðinni.

mánudagur, 20. apríl 2009

Banana- og döðlubrauð

Eftir heljarinnar páskahret er ég öll að koma til - bragðskynið aðeins farið að láta á sér kræla þó að ég sé enn með hellu fyrir eyranu þannig að ég heyri ekki hálfa heyrn þá kemur þetta allt að lokum :) Maður batnar að lokum og er heppin að vera ekki lífshættulega- eða langveik :) Þegar bragðskynið er loks komið langar mig bara í eitt: banana- og döðlubrauð!! Svo að ég ákvað að skella hér uppskriftinni inn af dásamlegu brauði, sykurlaust en fullt af sætum ávaxtasykri þannig að þegar maður borðar brauðið er eins og maður sér að borða eitthvað svaðalega óhollt og sykrað - en nei þetta er bara hollusta! Gott fyrir líkama og sál :)

-----

Döðlu- og bananabrauð

Hráefni:
200 g döðlur
2,5 dl heitt vatn
2 stk stappaðir bananar

1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi

1/2 tsk salt
300 g hveiti (eða 150g spelt og 150g sigtað spelt)
2 stk egg
2 msk olía
1 tsk. vanilludropar

Aðferð:
Döðlurnar brytjaðar og settar í pott ásamt vatninu, suðan látin koma upp og allt kælt svo aðeins. Þurrefnum blandað saman við, eggjunum og vökvanum hellt út í og allt hrært saman. Sett í tvö aflöng form og bakað í 40 mín. við 200°C.
-----

Þetta er algjört lostæti! Einfalt og gott! Smá smjör ofan á og mjólkurglas! Dásamlegt :)

föstudagur, 10. apríl 2009

Vera þakklátur

Á meðan sumt fólk missir vinnuna og peninga er annað fólk sem missir ástvini. Í Ítalíu er þjóðarsorg vegna jarðskjálfta, þar sem mörg hundruð manns hafa dáið og yfir 1000 manns slasast. Í Írak deyr fólk á hverjum degi og lifir í endalausum ótta við sprengjur og skotárásir. Í Afríku og öðrum þróunarlöndum lifir fólk varla daginn af vegna sjúkdóma eða/og matar- og drykkjaleysis. Align Center
Á Íslandi er meðallífsaldur fólks með því alhæsta sem þekkist í heiminum og um daginn sá ég frétt þar sem meðallífsaldur karlmanna væri sá hæsti á Íslandi. Mikið getum við verið þakklát fyrir það. Við getum verið þakklát fyrir hreina loftið, tæra og góða vatnið, friðinn og lífið hér á Íslandi.

Þó deyr fólk líka á Íslandi og á hverjum degi les maður yfir sorglegar minningargreinar, sér lítil börn eða ungt fólk í blóma lífsins. Alltaf er fólk að missa ástvini; foreldra, börn, afa og ömmur. Á hverjum degi ríkir sorg í einhverju hjarta sem er langtum verri en atvinnuleysi eða peningavandamál.

Ég fór að hugsa um lífið í öðru ljósi eftir að ég komst að því að kona á besta aldri deyr úr krabbameini, kona sem var full af lífi og gleði, naut þess að vera með börnum sínum og barnabörnum, var góður vinnuveitandi og yndisleg að öllu leyti. Þessi kona kemst að því að hún sé með krabbamein og að hún muni deyja eftir nokkra mánuði. Sú tilfinning hlýtur að vera skelfileg og að þurfa að segja sínum nánustu fréttirnar er eitthvað sem enginn getur ímyndað sér.

Maður verður að hugsa til þess jákvæða í lífinu og þakka fyrir allt það góða sem maður á. Lífið getur verið ósanngjarnt og erfitt. Núna eiga margir mjög erfitt og skelfilegt að svona sé komið fyrir okkar góða landi og að fólk eigi ekki mat handa sér og börnum sínum. En til að þrauka svona tíma af og horfa fram á við, verður maður að vera bjartsýnn og jákvæður. Maður verður að vakna á morgnanna, áorka einhverju og líta til framtíðar. Nota tímann sem maður hefur á þessari jörðu, með því fólki sem maður elskar.

Farið vel með ykkur og reynið að njóta lífsins til fulls.. þó það sé oft erfitt.

- Gleðilega páska elskurnar -

mánudagur, 6. apríl 2009

Sveitasælan er dásamleg

Ég er stödd þessa dagana í Blöndudal hjá ömmu minni í Ártúnum. Við erum hér nokkur saman, mamma, Embla systir, Guðrún frænka, Sigga Dögg (dóttir Guðrúnar) og dóttir hennar, Auður Freyja, ásamt Magnúsi Ara barnabarn Guðrúnar sem er 4 ára gamall.

Við Magnús Ari skelltum okkur saman í fjósið í gær sem var ábyggilega álíka gaman fyrir okkur bæði, þar sem hann er lítill polli að sjá ýmislegt í fyrsta sinn og ég að rifja upp gamla tíma í sveitinni. Mér finnst ótrúlega tilfinning að fara með svona strák í fjósið og hugsa til þess að hann fái það tækifæri sem mörg börn fá aldrei, að vera í sveit og upplifa lífið utan borgarmenningarinnar. Auk þess að læra að umgangast dýr og náttúruna.

Við lentum nú í ýmsum ævintýrum þennan klukkutíma sem við vorum í mjöltum í gær. Magnús Ari fékk eitt stykki sveiflandi kúahala framan í sig (sem er afskaplega vont fyrir þá sem hafa ekki lent í því!) og Magnúsa Ari grét aðeins og fibaðist en við komumst mjög fljótt að þeirri niðurstöðu að kýrin hafi bara ekkert vitað af honum þarna, auk þess sem hún notar halann til að kæla sig niður og bægja frá flugum. Við skelltum vörn í sókn og tókum á það ráð að halda í halann þegar einhver sat hjá og mjólkaði svo engin myndi lenda í kúahalaárás eins og Magnús Ari. En að halda í kúahala er heilmikið átak.. þær eru "naut"sterkar og nautahali líkari svipu en hala! Oddhvass og berjandi.

Fleira sem skeði var að kálfar voru að sleikja á okkur hendurnar og reyna að rífa þær inn í sig... en þær eru líka rosalega sterkar í tungunni og eru fljótar að ná lítilli hendi upp í sig! Lítill nýfæddur kálfur hleypur um allt fjósið hoppandi og skoppandi auk þess sem villiköttur er búin að fá sér bólfestu í fjósinu og kvæsir á þá sem nálgast sig!

Í kvöld ætlum við að skella okkur aftur í fjósið og skemmta okkur :) Að fara með barn í sveit og fjós er frábær upplifun og að gera það sjálfur er líka rosalega skemmtilegt! Þessi upplifun lifir með barninu alla tíð og breytir ýmsu í hugsun og heðgun að hafa verið í sveit til hins betra ;)

mánudagur, 23. mars 2009

Eins og flestir vita sem þekkja mig - þá er ég í augnablikinu að undirbúa mig undir háskólanám. Ég kláraði stúdentinn seinasta vor en ákvað svo á seinustu stundu að fara í hjúkrunarfræði (en ekki sálfræðina sem hafði verið planið lengi) en þá kom babb í bátinn. Til að komast inn í hjúkrunarfræði voru þau inntökuskilyrði hjá Háskóla Íslands að nemandinn yrði að vera búinn með EFN103 og EFN203 til að komast inn. Þannig að þá tók við ár í Fjölbrautarskóla Suðurlands aftur.. en breyttir tímar - því nú var maður ein af "gömlu kerlingunum" hehehe.. viss lífsreynsla það! Annars hékk ég aðallega með litlu systur minni (busanum) og hennar vinum.. jújú maður er svo "kúl".

En nýjustu fréttir eru þær að það er búið að afnema þessi inntökuskilyrði og nú eru engin inntökuskilyrði til staðar nema stúdentspróf (eða sjúkraliðamenntun og að vera orðin 25 ára ef sú menntun á við) þannig að þá sá ég að þetta heila ár sem ég seinkaði háskólamenntun minni var til einskis! Eða hvað??

Á þessu ári hef ég lært ýmislegt, ég hef tekið aðra kúrsa með efnafræðinni, lífræði og líffærafræðikúrsa auk þess sem ég er núna í lífrænni efnafræði (í háskólanámsbók) og það er einmitt eitt fag í hjúkrunarfræðinni á fyrsta ári sem er lífræn efnafræði - ekki slæmt að vera komin með allgóðan grunn í því! En auk þess að hafa lært heilmikið þá hef ég líka slappað af! Ég hef prjónað heilmikið og saumað! Hreyft mig meira og reynt að breyta lífsvenjunum til hins betra, notið þess að vera heima á hótel mömmu og "chillað" með fjölskyldunni.

Þannig að þetta ár var engan veginn til einskis - þó manni finnist auðvitað svolítið sárt að hafa eytt svona mikilli orku í þetta - þá er ekkert til einskis - bara mismunandi reynsla og ég er öruggari í gegn um þetta nám núna en í fyrra því ég hef amk einhvern grunn sem hægt er að byggja á í stað þess að stökkva beint í djúpu laugina án þess að kunna að synda!

EN mér blöskraði nú heilmikið í morgun þegar ég komst að því að háskólakennarar þurfa ekki að taka nein kennsluréttindi til að kenna í háskóla! Framhaldsskólakennarar þurfa að taka 1 ár í kennsluréttindum og grunnskólakennarar 2 ár en háskólakennarar ekkert nema að hafa doktorsgráðu! Hvernig eiga háskólakennarar að vita hvernig kennslunni er best háttað - hvernig prófin eiga að vera uppbyggð og fleira í þeim dúr! Mér sýnist þeir nú bara vera að stökkva beint í djúpu laugina án þess að kunna að synda - sem ég mæli nú ekki með! ;)

Jæja, ætli þetta sé ekki nóg lesning fyrir ykkur í dag :) Fleiri gullmolar framundan svo fylgist með og látið mig vita af ykkur svo ég sé nú ekki að tala við sjálfan mig hérna :)

laugardagur, 14. mars 2009

"Öðruvísi" skemmtanir

Ég er kannski ekki "hið eðlilega" ungmenni sem fer á djammið hverja helgi, drekkur mikið áfengi og já skemmtir sér á þann máta.. nei ég fer aðeins aðrar leiðir..

Söngkvöld eru skemmtun sem ég hef alist upp með alla mína ævi, reyndar fékk ég mín fyrstu ár ekki að fara og var sett í pössun og því eru þessi kvöld enn meira spennandi í seinni tíð. Pabbi heldur þessi kvöld, býður vinum og vandamönnum til að safnast saman og syngja upp úr söngbókum (sem pabbi hefur útbúið og látið prenta). Síðan er kaffi og spjall inn á milli. Þetta er frábær skemmtun, alltaf jafn skemmtilegt að syngja og hitta svo vini og vandamenn - suma sem maður hittir sjaldnar.

Hagyrðingamót er önnur skemmtun sem mér líkar afskaplega vel - búin að mæta á tvö slík mót - og líklega yngsti aðilinn á þessu kvöldi. En þarna koma saman hinir ýmsu hagyrðingar frá öllum landshlutum og svo er mótið haldið til skiptis í landshlutunum fjórum þannig að nú þegar hef ég farið á mót á Blönduósi og svo við Vík í Mýrdal og næst verður það haldið einhversstaðar hér á Suðurlandinu - alveg dottið úr mér hvar. Og auðvitað mætum við!! Steindór kom með okkur í fyrra og skemmti sér konunglega - enda hagyrðingur sjálfur ;) Og fyrir það næsta er búið að panta partýbústað fyrir familiuna - ætlum nefnilega að reyna að ná Emblu með í þetta sinn ;)
Góður matur í góðum félagsskap, söngur, glens og gaman auk allra vísnanna og stakanna sem koma fram á yfirborðið og sýna manni hve ótrúlegur sá hæfileiki er að geta ort góða vísu!

Um daginn var svo haldið þorrablót í mömmu fjölskyldu og var það ótrúlega gaman - söngur (eins og alltaf:) og m.a.s. samkvæmisleikir sem undirrituð sá um með öðrum að undirbúa :)

Svo má nú ekki gleyma miðvikudagskvöldunum góðu þar sem við systurnar mætum til Annýjar frænku, borðum popp og horfum á Grey's Anatomy með spjalli og fjöri :)

Þegar ég er ekki í svona þrusustuði þá er ég afskaplega slök! Hef það notalegt heima með Emblu sys eða Dalíu kisu! Ef ég er ekki í jógastellingum eða hoppandi og skoppandi með Emblu inní stofu þá sauma ég út eða prjóna! Og fyrir utan það finnst mér ótrúlega skemmtilegt að glugga í og lesa þjóðsögur, norræna goðafræði eða í íslandssögubókinni minni :) Já fólk er kannski hissa á að ég sé ekki gáfulegri en ég er.. leyni á mér!! haha! En reyndar svo svakalega gleymin að ég gleymi því miður jafnóðum því sem ég var að lesa.. en þá get ég líka lesið það aftur og aftur með sömu ánægju!

Kannski fer ég aðeins að líkjast "hinu venjulega ungmenni" næsta haust þegar ég fer í HÍ og kíki á félagslífið þar ;) En hagyrðingamót og söngkvöld verða samt alltaf frábær og góð blanda við "hið venjulega" :) Því það er svo gaman að gera eitthvað furðulegt og öðruvísi - vera ekki eins og allir hinir!

Hafið það gott og skemmtið ykkur eins og þið skemmtið ykkur best! :) kv. Halla Ósk

þriðjudagur, 3. mars 2009

FSu í fjölmiðlum

Nýverið hefur verið mikið talað um FSu í fjölmiðlum og það neikvætt.. alls kyns ofbeldis- og eineltisfréttir þannig að FSu er í augnablikinu skaðræðasti skóli landsins held ég bara.

Ég tel samt að FSu sé á engan hátt verri en aðrir skólar, jú hann er mjög svæðisskiptur sem getur auðvitað orsakað eineltisraddir en "lítill sveitaskóli" verður kannski sjálfkrafa soldið skiptur þar sem fólk kemur í hópum frá hinum ýmsu sveitafélögum sem hafa ekki umgengist hvort annað hingað til.. sumir frá Selfossi, aðrir frá Hellu og Hvolsvelli og enn aðrir frá Hveragerði eða Þorlákshöfn. Á milli þessara svæða á suðurlandinu sem skólinn sameinar er heilmikil vegalend og þar með skiptist þetta svona niður. Fólk þekkist samt mikið á milli svæða og skapast nýjir vinahópar þarna eins og annarsstaðar - t.d. í gegnum lífsleikniáfanga sem er aðra önnina á busaárinu í skólanum - stór blandaður bekkur fullur af busum og tímar í 6 x 40mín á viku! Það þjappar hópum og svæðum saman, a.m.k blandast aðeins betur!


Ég held að vandamálið sé aðallega hönnunin á skólanum - hann er sjálfkrafa svæðaskiptur vegna hönnunar"galla" .. fólk verður að dreifa sér hér og þar í horn, ekki nema fáir komast í matsalinn (sem er þó stærsta svæðið) þannig að þar saf
nast fyrir selfossbúarnir (sem eru oftast fjölmennastir í skólanum) og svo skipta minni sveitafélög sér niður á minni svæðin... ef skólinn væri hannaður eins og t.d. VMA (þar sem ég var í 2 ár í skóla) þá væri þetta örugglega ekki jafnstórt vandamál! Þar er bara ein stór gryfja þar sem stólar og borð (mislöng) eru út um allt.. (mynd hér f. ofan) og í návígi við hvort annað þannig að maður sest bara þar sem maður þekkir fólk en engin merkir sér borð - þar sem allt er eins! Einnig er skólinn á hæðum og á tveim efri hæðunum eru eingöngu "mini" svæði þar sem örfáir komast fyrir - og það orsakar oft að þeir sem komast ekki á visst svæði sækja upp á aðrar hæðir og útiloka sig af þar.

Annars held ég eins og ég sagði hér fyrir ofan að FSu sé á engan hátt verri en aðrir þar sem ég man t.d. eftir því að í VMA fór lögreglumaður með fíkniefnahund um skólann nokkrum sinnum á önn vegna fíkniefnavandamála í skólanum.. ekki var þetta rætt í neinum fjölmiðlum sem ég man eftir.
Ég held að fjölmiðlamenn á suðurlandi séu bara svo afkastasamir og hreinskilnir að þeir segja meira frá því sem gerist hér en aðrir landshlutar.. og þegar eitthvað smá hefur skeð - þá beinast öll spjótin á þann stað og reynt að finna og segja frá öllu sem gerist - sama hve ómerkilegt eða lítið það sé.

Ég held fyrst og fremst að það megi alls ekki túlka FSu eða Selfoss sem einhvern glæpabæ þó að fréttirnar og fjölmiðlar segi meira frá þess háttar fréttum héðan en annars staðar frá.. ekki verð ég vör við
neitt og fjölmiðlar ættu kannski að íhuga að hafa jafnt hlutfall milli landshluta - enda sér maður að Magnús Hlynur er mjög duglegur að koma með ýmsar fréttir af suðurlandinu - flestar jákvæðar, glettnar og skemmtilegar þó hinar verði auðvitað að fylgja með stundum - enda er lífið ekki eingöngu dans á rósum! Ekki man ég eftir nýlegum fréttum frá t.d. Sauðárkróki eða Patreksfirði.
Munum bara að vera með opin huga.. gefum öllum tækifæri og stimplum ekki fólk án þess að kynnast því og þekkja nákvæmar aðstæður. Gefið Selfossi og FSu séns.. það hafa allir galla - allir skólar og öll sveitafélög en Selfoss er yndislegur bær, fallegur og notalegur.. og FSu hefur sína kosti þó að skiptingin sé mikil og lítill hópur sé til vandræða - þá eru hin 90% indælisfólk og jafn góðir og aðrir framhaldsskólanemar í landinu.

fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Systraást


Ég hef mikið velt þessu hugtaki fyrir mér - systraást. Sumar systur eru aldrei nánar en auðvitað elska hvor aðra - enda náskyldar. En systur eru svo misjafnar.. sumar hnakkarífast endalaust.. aðrar rífast aldrei. Sumar líta á systur sína sem einhvern sem maður neyðist til að umgangast og þola.. en aðrir líta á systur sína sem vinkonu og einhvern sem maður vill umgangast sem mest.

Ég á dásamlega systur, Sigríði Emblu, sem er 4 árum yngri en ég og mitt eina alsystkini. Við höfum alltaf verið saman, alltaf verið nánar... og bjuggum meira að segja saman í herbergi í mörg ár þegar við vorum yngri - svokallaðar kojusystur! Og þetta voru dásamleg ár.. alltaf gaman.. lékum okkur með brúður og bangsa - plastdýr, kubba og önnur leikföng.. Bjuggum til leikrit og hlóum af því öllu saman. Ég varð auðvitað stundum þreytt á þessari litlu systur minni sem vildi vera eins og stóra systir og elti mig jafnvel á röndum þegar ég var með vinum mínum... en ég held það hafi nær aldrei ef einhverntíma komið til mikilla rifrilda og ef svo var vorum við jafnsnöggar að sættast aftur.

Í dag er hún mín albesta vinkona, hún er 16 ára og ég tvítug.. og ég get ekki hugsað mér hana betri! Ég nýt þess að umgangast hana sem oftast.. get talað við hana um hvað sem er.. hún þekkir mig manna best og við elskum hvor aðra nákvæmlega eins og við erum - enda erum við afskaplega líkar bæði hvað varðar skap og húmor! Og sumir telja okkur líka líkar útlitslega! Við rífumst aldrei og höfum engan áhuga á því.. við ræðum málin alveg og höfum mismunandi skoðanir en rífumst samt ekki. Ég get ekki hugsað mér veröldina án hennar og hlakka alltaf til að hitta hana.. knúsa hana og flippa með henni!

Ein skemmtileg sönn systrasaga í lokin: Fyrsta nóttin sem ég svaf ein í herbergi (en ekki í koju með Emblu) þá vaknaði ég um miðja nótt.. labbaði að herbergi mömmu og pabba og umlaði þar eitthvað og tautaði (upp úr svefni).. þegar mamma og pabbi sögðu mér að fara bara aftur að sofa og inn í rúm þá fór ég inní kojuherbergið þar sem Embla svaf í neðri kojunni og hlunkaði mér ofan á hana þannig að mamma og pabbi heyrðu dynk inní herbergið sitt.. þegar þau koma inn í herbergið ligg ég ofan á Emblu og Embla steinsofandi og ég auðvitað líka! Mamma tók mig inn í herbergið mitt og ég svaf þar sem eftir var a.m.k. þessarar nætur.


Hafið það gott og munið að elska systur ykkar - og önnur systkini :)
knús, Halla Ósk